Aðstoð

sleeperinn

Svör samtals: 12
Virk(ur) síðan: 23 July 2012

Sælir Hlaðverjar,

Mér vantar smá aðstoð og var að vona að þið gætuð hjálpað mér. Hver teiknaði þessa mynd og hverjir skrifuðu þessar greinar og hvernig kemst ég í samband við þá.

[img][/img]

1. Fyrirsát í gæsaveiði;

Þegar velja skal tún er best að skoða það síðdegis. Þá skal að því hugað hversu margar gæsir þar eru saman komnar. Til þess að fyrirsát sé ómaksins verð, þurfa að vera á milli 100 og 150 gæsir á túninu. Nauðsynlegt er að leggja alla staðhætti vel á minnið, s.s. skurði, helstu fjarlægðir, sem og hvort búpeningur er á róli í grenndinni.
Síðan er komið undirbúningnum á túninu sjálfu. Gervigæsum skal komið fyrir í skjóli myrkurs. Tvennt ber þá að hafa í huga og það er vindáttin og fjöldi gervigæsa. Þess skal ætíð gætt að höfuð gæsanna snúi upp í vindinn, þó mega nokkrar liggja skáhallt við vindáttinni, u.þ.b. 20-30°. Sé skammt liðið á veiðitímabilið (ca. 20 ágúst-10 september) er hyggilegast að raða gæsunum upp í litlum hópum, um 6- 12 saman, því á þessu tímabili halda fjölskyldur hópinn.Gæsir hafa skarpa sjón og fljúga burt verði þær varar við hina minnstu hreyfingu.
Víkjum þessu næst að fjölda gervigæsanna en hann ræðst mjög af stærð túnsins. Nægjanlegt ætti að vera að hafa frá 40 upp í 70 stykki. Dæmi eru til að skyttur hafi á annað hundrað gervigæsa þegar um stór tún er að ræða.
Tvennt verður að hafa í huga þegar kaupa skal gervigæsir: 
Annars vegar þarf eina “varð-gæs” á hverja tylft og hin vegar aðra “aðvífandi” þ.e.með útbreidda vængi, líkt og hún sé í þann veginn að setjast á túnið. Sé skyttan með fjölskota vopn, þá er gott að setja fyrstu tvö skot af haglastærð nr.4 í skotstæðið (“magasínið”) en nota síðan nr.2 í hin. Þetta er sökum þess að fyrst er skotið á stuttu færi, u.þ.b. 10-20 metrum, en þegar hrinunni lýkur er færið orðið u.þ.b. 30-50 metrar. Þá kemur sér vél að hafa stærri högl í byssunni.
Að veiðinni lokinni skal þess vandlega gætt að tína saman tóm skothylki og annað rusl. Þetta er mikilvægara en margur hyggur því að líkindum vilja menn eiga afturkvæmt á góð gæsalönd og því er nauðsynlegt að koma sér ekki út úr húsi hjá landeigendum með slæmri umgengni. Síðast en ekki sýðst er það sterkur leikur að þakka landeigendum fyrir sig og bjóða honum gæs fyrir gestrisni sína.
Að lyktum skal lesandanum lagt það heilræði að horfa ekki í krónurnar þegar kaupa skal gervigæsir. Vera kann að þær þyki dýrar og magntölur, sem hér hafa verið nefndar, óþarflega háar. En þegar margar veiðiferðir að baki með misjöfnum árangri, þá mun reynslan sýna og sanna að fé og tíma sem er til kaupa á gervigæsum, var vel varið.

2. Fyrirsát á önd;

Að mörgu þarf að huga þegar halda skal til andaveiða. Nauðsynlegt er að finna heppilega tjörn, klæðast góðum fatnaði í felulitum , hafa rétta gerð af gerviöndum, rétta þrengingu í byssunni og síðast en ekki síst rétta haglastærð og hleðslu.
Þegar tjörnin er fundin er næsta skref að “læra á svæðið”. Þetta verður best gert með því að fylgjast með öndunum: Hvaða tegundir anda eiga í hlut, hvenær þær koma á tjörnina, hvernig þær fara um svæðið og hvernig aðstæður eru til fyrirsátar. Á andaveiðum eru aðstæður til fyrirsátar mun lakari en á gæsaveiðum. Til dæmis er sjaldan skurðum til að dreifa, né öðru afdrepi þar sem hægt er að leynast. Því er eina ráðið að klæðast litum landsins og nota felunet. Netið er þarfaþing því jafnvel þótt skyttan sé samlit umhverfinu , þá eru útlínur líkamans oft á tíðum svo skýrar að endurnar verða varar við hinn óboðna gest. Sé feluneti hins vegar brugðið yfir, verður skyttan nánast samhverf landslaginu.
En víkjum að gerviöndunum. Algengustu andategundir í íslenskri náttúru eru stokkendur, rauðhöfðar, urtendur og skúfendur. Því þarf að eiga gerfiendur af öllum þessum tegundum. Gott er að eiga 2-3 fljúgandi gerfiendur, þ.e.a.s. með útbreidda vængi. Þá sýnist öndunum að stallsystur þeirra séu í þann mund að setjast á tjörnina og fara að dæmi þeirra, gangi allt að óskum.
Hvað þrengingu og skotfæri áhrærir skal mælt með “Improved cylinder” og haglastærðum nr. 4-6. Fyrstu tvö skotin í stæðinu eru nr4en hin nr.6 . Þessi háttur skal hafður á því þegar skyttan  tekur að skjóta er færið mjög stutt. Hins vegar hefur drjúgum teygst úr því, um það bil er skothrinunni lýkur. Með öðrum orðum: Haglastærð nr.6 dugar best á stuttu færi en nr.4 á löngu færi. Við andaveiðar er heilladrýgst að nota 36 gr. hleðslur hið minnsta.
Þegar endurnar koma aðvífandi skal ekki bíða eftir því að þær setjist. Best er að skjóta skömmu áður en endurnar tylla sér, því eftir að þær eru sestar minnkar skotmarkið til muna, auk þess sem vængfiðrið ver þær og dregur úr krafti haglanna.
Þegar skyttan kemur sér fyrir við tjörnina skal ávallt gæta þess að hafa vindinn í bakið . Einnig skal huga að því að búa til “lendingarbraut” fyrir endurnar þegar gerviöndunum er stillt upp. Þegar endur koma aðvífandi, setjast þær undanbragðalaust í jaðri þess hóps sem fyrir er en ekki í hann miðjan . Því skyldi skyttan stilla gerviöndunum upp við mótlægan bakka, en ekki hið næsta sér.
Að svo búnu er ekki eftir neinu að bíða.

3. Rjúpnaveiði;

Þegar farið er til rjúpna er að mörgu að hyggja. Nauðsynlegt er að hafa góðan bakpoka, haldgóðan skjólfatnað, landakort og áttavita. Að sjálfsögðu þarf svo staðgott nesti og álvarmapoka sem hægt er að skríða ofan í, fari eitthvað úrskeiðis. Einnig ættu allir veiðimenn að gera sér það að reglu að láta einhvern vita hvar áætlað veiðisvæði er, sog og hvenær ætlunin er að snúa heim í síðasta lagi. Já , það er aldrei of varlega farið í íslenskum fjöllum að vetrarlagi. Góður sjónauki ætti að vera sjálfsagður ferðafélagi rjúpnaskyttuna. Einnig skyldi hún gæta þess að fara hægt og hljóðlega yfir, því rjúpan treystir oft á feluliti sína og situr sem fastast. Ekki er óalgengt að skyttur fari of geyst og gangi beinlínis framhjá rjúpum fyrir vikið. Víst er það neyðarlegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, þegar félagi manns skýtur rjúpuna sem maður var nánast búinn að stíga ofan á. Því er það heillaráð að fara sér að engu óðslega og skoða landið vel í sjónauka.
Þá skal vikið að þrengingu og skotfærum. Best er að hafa tvær mismunandi þrengingar með í för. Fulla þrengingu, sé bráðin fælin, og “Improved cylinder”, sé við værukærar rjúpur að eiga. Nota ber einnig tvenns konar skot, nr.6 og nr.4. Gott er að hafa fyrstu tvö skotin í stæðinu nr.6 en hin nr.4. Með því móti eru skot nr.6 notuð á stuttu en nr.4 á löngu færi.
Það er verðug prófraun hverjum veiðimanni að fella rjúpu á flugi því fuglinn er smávaxinn og hraðfleygur. Þá auðveldar það ekki leikinn að rjúpur fljúga ærið skrykkjótt . Í slíkum tilfellum kemur sér vel reynslan af æfingum á leirdúfu skotfimi.
Einnig má benda rjúpnaveiðimönnum á að það hefur færst mjög í vöxt að nota fuglahunda við veiðarnar. Ekki að eins finnur hundurinn rjúpuna þar sem hún liggur í felum fyrir veiðimanninum, heldur sækir fuglahundurinn líka fallna og særða bráð. 
Það er því von mín að sem flestir sjái sér fært að fá sér slíka hunda í framtíðinni.


4. Fljúgandi bráð;

Til að fella fljúgandi bráð þarf bæði leikni og þekkingu.
Þrennt er það sem hafa ber í huga:
A)  Hversu hratt flýgur bráðin? 
B)  Hver er hraði haglanna í upphafi (við hlaupið)? 
C)  Hversu langt á að leiða bráðina, þ.e. hversu langt skal miðað fram fyrir fuglinn?
    Til er forskrift sem fundin var með því að mata tölvu á þrenns konar upplýsingum: Hraða fuglsins , hraða haglanna við hlaupið og loks fjarlægð bráðarinnar frá veiðimanni. Miðað var við högl af stærð 4, að hraði þeirra væri 1330 fet/sek. og að fuglinn flygi 21 má/sek. Þrenns konar færi var haft til viðmiðunar:  55 metrar, 37 metrar og loks 18 metrar.
Niðurstöður urðu þessar: Á 55 metra færi þarf að leiða bráðina um tæpa 5 metra. Á 37 metra færi þarf að leiða 2,5 metra en á 18 metra færi 1 metra.
En hvernig er þá unnt að meta hversu langt er leitt?
Eftirtaldar þumalputtareglur má gefa: Segjum að ætlunin sé að leiða um 5 metra.Þá má gefa sér að það samsvari um hálfum metra, frá hlaupinu séð. Sé ætlunin að leiða um 2,5 metra, þá svarar sú fjarlægð til u.þ.b. 25cm.frá hlaupinu séð. Og sé í ráði að leiða tæpan I metra, þá jafnast það á við u.þ.b. 10cm. Reiknað frá hlaupi skyttuna. Sem sagt :Áætla má um 10cm. fyrir hvern metra.
Þetta getur verið breytilegt því menn eru misfljótir að sveifla vopninu. Aðeins er ein leið til að ná góðum tökum á þessu og það er að stunda stífar skotæfingar með leirdúfum. Nauðsyn strangra æfinga verður seint ofmetið, vilji menn komast hjá því að særa fugl og tapa honum. Hin eina sanna sportveiðimennska er í því fólgin að bana bráðinni á flugi, skjótt og kvalalaust.

Með fyrirfram þökk
Trausti

Tags:

Viðhengi:

Skrifað þann 13 April 2016 kl 11:46
Sýnir 1 til 5 (Af 5)
4 Svör

karlgudna

Svör samtals: 114
Virk(ur) síðan: 23 July 2012

Re: Aðstoð

Sælir . myndin er úr bókinni Skotveiðar í Íslenskri náttúru, eftir Ólaf E. Friðriksson. er of latur að bera saman greinarnar en grunar að þær séu úr sömu bók. Bókin var gefin út af IÐUNN u.þ.b. 1997 Ekki veit ég hvernig er hægt að ná sambandi við þessa snilla sem bókina gerðu en vonandi hjálpar þetta eitthvað.
kveðja Karl

Skrifað þann 13 April 2016 kl 22:42

sleeperinn

Svör samtals: 12
Virk(ur) síðan: 23 July 2012

Re: Aðstoð

Takk fyrir svarið Karl, ég skoða þetta.

Skrifað þann 16 April 2016 kl 20:20

thorduri

Svör samtals: 4
Virk(ur) síðan: 23 July 2012

Re: Aðstoð

Myndin er úr bókinni Skotveiðar í íslenskri náttúru eftir Ólaf E Friðriksson, en textinn er ekki þaðan þó svo hluti hans sé klárlega notaður sem heimild.

Þórður Ívarsson

Skrifað þann 17 April 2016 kl 21:00

BalliRiffill

Svör samtals: 9
Virk(ur) síðan: 23 July 2012

Re: Aðstoð

Gæti verið að Guðmundur Borgþórsson hafi skrifað þetta.

Skrifað þann 6 August 2016 kl 23:23